Smáauglýsing!

Þessi fágæti forngripur er nú til sölu.

Samkvæmt öruggum heimildum er þetta sá síðasti sinnar tegundar í heiminum. Hann hefur fimmgengisvél og kemst nokkuð örugglega milli staða. Eins og sjá má hefur hann ekkert númer að framan og þykir það bara nokkuð töff (eða Selfossvænt eins og opinber orðabókaskýring á töff er í dag). Einnig framkallar hann einkar skemmtilegt hljóð þegar hann er ræstur og hefur ekkert útvarp (hver þarf útvarp þegar maður getur sungið hóp- og/eða keðjusöngva).

Hér gefur að líta fleiri myndir af gripnum. Eins og glöggir menn sjá er liturinn hinn sígildi eiturpastelælugræni (eða poisonpastelvomitgreen fyrir enskumælandi fólk) en hann er sjaldséður á nýjum bílum (sem er synd). Kerran er tveggja dyra, gríðarlega öflug (eins og sést á Selfossvænu loftgötunum á húddinu). Auk þess er einungis ein rúðuþurrka en það þykir koma sér betur í rallíi. Hér sést ung stúlka pósa við bílinn en hún er innifalin í verðinu (girl included).

FRAMHALD NEÐAR....



Varadekk fylgir nokkuð örugglega með, það á eftir að finna það.
Bíllinn er einstaklega rúmgóður, einkum þegar stuðarinn hefur verið fjarlægður úr aftursætinu (sjá mynd). Hafa margir merkir menn haft á orði að þetta sé rúmbesti kvartmílusmábíll í heimi. Jafnvel hefur heyrst að hrossakaupmenn hafi nýtt sér bíla af þessari tegund hér á öldum áður. Þess má einnig geta að þessi sportstuðari er algjörlega einstakur safngripur og myndi einn og sér vera metinn á um hálfa milljón. Líklega væri hann betur fallinn sem stofustáss en undir bílinn. Hann eykur þó enn frekar á straumlínulögun bílsins.

Allt þetta fyrir einungis 100þús kall (eða bara pönnukökur og kakó)!!! Nánari upplýsingar gefur Ásdís Eir (fyrirsæta) og heyrst hefur að henni finnist skemmtilegast að svara símanum milli 01-06 á næturna, þá er hún pottþétt með hann á sér. Endilega ekki vera feimin við að hringja!



Jesssss!

Jæja, ekkert sumarpróf fyrir mig, nei takk!
Ég fékk 7 í veirufræðinni!
Gleði og hamingja eru allsríkjandi núna!
(Þetta kallar meira að segja á eitt enn upphrópunarmerki: !)



Smá framhald við síðastu skrif!

P.P.S. Þessa mynd og fleiri má sjá í myndasafninu mínu undir símamyndir. Þar kennir ýmissa grasa, m.a. eru þar nokkrar myndir af bekkjarfélögum og vinum auk mynda úr morgun„afmæli“ Þórunnar Hannesdóttur.

P.P.P.S. Smellið á myndina ef þið viljið sjá dýrðina í fullri stærð!



Paparazzi!

Ég sat í sakleysi mínu inn í hlýjum bílnum mínum, svarta pardusinum, þegar ég sá hryðjuverk í uppsiglingu. Sem ég sat þarna og beið eftir Þórunni hinni fögru, kom þar aðvífandi kona á langri og stórri sjálfrennireið, svokallaðri skutlu. Hún lenti í hinum mestu vandræðum með að finna stæði þó að sennilega hafi 6 stæði verið auð og vel íleggjanleg. AHA! Loksins eftir heilmiklar tilfæringar forðaði einn bíll sér í ofboði og umrædd kona kom augastað á tvö aðliggjandi stæði. „Frábært!“ hefur hún eflaust hugsað (og ég líka, þar sem mér leist ekki á blikuna). Nú tók hún á rás á bílnum og ég hélt auðvitað að hún ætlaði að renna sér auðveldlega inn í annað stæðið. En nei, það var greinilega ekki nóg, heldur var bakkað og beygt á alla kanta og sennilega tók þetta allt um 10 mínútur af bakki, glugga- og hurðaopnunum og á einum tímapunkti fór hún út til að skoða aðstæður. Eftir þessa vettvangsskoðun var hún fullviss um að hún hefði stjórn á aðstæðum og full sjálfstrausts steig hún aftur upp í bílinn og undir stýri.
Hver var svo lokaniðurstaðan???

Þessi!
P.S. Með þessum skrifum er ekki vegið að aksturshæfileikum annars kynsins, enda ekki hægt að alhæfa um svo stórt þýði. Eitt er þó eins víst og að ananas er góður að þessi gella var algjörlega óhæfur ökumaður.



Fyrstur með fréttirnar....

Ég segi að eftir smá tíma komi fréttatilkynning um að ósérhæfðir coxhamlarar (t.d. íbúprófen) valdi óæskilegum aukaverkunum. Þeir auka t.d. hættuna á hjarta- og heilaáföllum. Athugum hvort ég verði forspár! Spennandi....



Einu sinni var [....]

Mig langar að prófa eitt og sjá hvernig það kemur út.
Þetta virkar svipað og leikurinn sem maður fór í í grunn/menntaskóla þar sem fólk skrifar setningar á blað og brýtur síðan upp á blaðið þannig fólk sjái ekki hvernig sagan er og svo verður úr því skemmtileg saga, nema hérna sér fólk hvað hefur verið sagt.
En endilega látið hugmyndaflugið ráða og komið með skemmtilegan söguþráð!

Sagan hefst á orðunum: Einu sinni var....



One down, one to go...

Náði sýklafræðinni!
Fékk 7,5 sem var algengasta einkunn!
Held ég hafi sýnt fram á að það er hægt að taka læknisfræðina utanskóla!
Jibbý!



Kenýa!

Í fyrradag tók ég mjög spennandi (og vonandi skemmtilega) ákvörðun. Þann 25. júní til 1. júlí á næsta ári mun ég vinna á heilsugæslustöð í Kenýa. Þar mun ég sinna ýmsum störfum, t.d. ungbarnabólusetningum, mæðraeftirliti og fleira með fátækum íbúum landsins. Ég fer ekki einn, heldur verður ekki ómerkilegra fólk en Þórunn, Ylfa og Kalli með mér þarna. Þetta verður örugglega frábær lífsreynsla og ekki spillir fyrir að svo ætlum við að ferðast í eina til tvær vikur um Afríku og reyna að upplifa eitthvað nýtt.
Áhugasömum er bent á Kenya-project. Ohh, ég hlakka til. Hér fyrir neðan er mynd af einum af sjúkrabílunum sem þeir eiga í Kenýa.





Óþægilegt!

Einni ákveðinni vinkonu minni þykir (eða þótti a.m.k.) mjög óþægilegt að borða banana fyrir framan annað fólk. Ég held að það hafi verið vegna þess að mjög auðvelt er að ímynda sér eitthvað dónalegt þegar fólk er að borða banana. Þetta er einmitt ástæðan fyrir því að ég tók eftirfarandi myndir. Verði þér að góðu, Dísa skvísa, þetta er handa þér:
















Módelið er að sjálfsögðu hann Tóti,
hann hefur þvílíka hæfileika í að pósa
fyrir myndatökur.... náttúrulegt
módel!



OJBARA!

Konni var svo vinsamlegur að setja þetta á bloggið sitt. Ég tek enga ábyrgð á afleiðingunum ef þið hlustið á þetta lag með Peter Andre og Jordan sílíkonbombu.



Spurning

Finnst engum öðrum en mér fyndið og skemmtilegt að morgunþátturinn Zúper sem SVALI, Gassi og einhverjir fleiri stýra sé styrktur af Trópí?? Bara pæling...



Til allra sem mér þykir vænt um...


...þið vitið hver þið eruð!



Svo bregðast krosstré...
...sem önnur tré.

Það er með örlitlum trega sem ég tók út síðuna http://stokkholmur.blogspot.com í tenglasafninu og bætti þar inn sitthvorri síðunni fyrir Huldu og Daða. Hélt að þetta myndi nú seint gerast. Vona bara að þetta nýja fyrirkomulag sé gott fyrir alla aðila. Að minnsta kosti geta forvitnir nú lesið hvað þau eru að bralla út í Svíþjóð. Virkilega góð skrif sem eiga eftir að koma þarna, ég finn það á mér.
Ég hlakka svoooo til að klára seinna prófið á þriðjudaginn, einar 700 glærur sem maður þarf að skoða. Ég ætla að slaka rækilega á næstu helgi, kannski möguleiki á partýi eða slíku, sé til.
Annars er það að frétta að sýkingin er farin og hnéið er að lagast, hægt en örugglega. Ég verð orðinn góður um áramótin ef allt gengur vel. Jibbý.

Mér datt samt eitt í hug þegar ég keyrði á eftir strætó í sumar. Aftan á var risastór auglýsing frá Glitni um Reykjavíkurmaraþon þar sem á stóð „Hlauptu frekar úr vinnunni“ eða e-ð álíka. Ég held að hægt sé að útskýra taprekstur Strætó bs. að miklu leyti á því að auglýsa gegn sinni eigin starfsemi. Þetta er eins og það stæði á kókflöskunum „Drekktu frekar vatn-það er hollara“. Myndu þeir gera það?? Nei, hélt ekki.
Bara pæling.



Palli kryppa massaði hib saurinn, missti lyst og lungu
og
kólað lak yfir strap-on-ið

Það er ekki laust við að maður sé að verða vel sýrður á prófalestri og veit ég ekki hvort er skárra, sjúkrahúsvist (með endaþarmsmælingum) eða stífur próflestur í efni sem maður hefur aldrei séð áður.
Þar sem núna eru ellefu tímar í prófið er ekki laust við að stressið sé að hellast yfir. Því er gott til þess að vita að þessi mikla romsa hefur að geyma 11 ástæður fyrir heilahimnubólgu, 7 algengar og 4 sjaldgæfari. Nefnilega

Algengar:
Hib => Haemophilus influenza B
Saurinn => Staphylococcus aureus
Missti => Neisseria meningitidis
Lyst => Listeria monocytogenes
Kólað => Esterichia coli
Lungu => Streptococcus pneumoniae
Strap-on-ið => Streptococcus agalactiae (B týpa)

Sjaldgæfar:
Palli => Treponema pallidum
Kryppa => Cryptococcus neoformus
Massaði => Mycobacterium tuberculosis
Lak => Neisseria gonorrhoea (lekandi)

p.s. Ég veit að blogg um skólann er leiðinlegt en minnisreglan er allavegana skemmtileg :) Ég held að skólablogg verði seint að reglulegum pistli hjá mér.

p.p.s. Hver vill fá sér ís á morgun?


Um mig

  • Ég heiti Ómar Sigurvin
  • og kem frá Húsavík
  • Meira

Aðrir fallegir bloggarar


Annað gott á netinu

Síðustu færslur

Skjalasafnið

Free Hit Counters eXTReMe Tracker


eXTReMe Tracker