Já, barnæskan!

Þegar ég var lítill var ég annálaður fyrir að vera mikill „prófessor“ sem er skrítinn titill fyrir mann sem ekki einu sinni hefur hafið grunnskólanám! En, eníveis, ég var kallaður prófessor (eða uppnefndur kannski) þar sem ég var alltaf að spá í alla hluti, spurði mikið og þótti hafa mjög óvenjulegan orðaforða.
Það er ein góð tilvitnun sem ég man eftir sem að hefur fylgt mér eins og skugginn í gegnum árin, allt frá því ég var fimm ára, og kemur alltaf upp þegar ég hitti fjölskylduna mína á Húsavík (en ég er fæddur þar, sko! Húsavík rokkar!). Þannig er í pottinn búið að þegar ég var fimm ára var ég eins og svo oft hjá ömmu og afa á Húsavík en þau eiga tvo stráka sem eru tveimur og fimm árum eldri en ég. Auk þess er frændi minn, Viktor, einu ári eldri en ég og vorum við alltaf allir á Baughólnum hjá Ö & A. Þennan umrædda morgun voru þeir allir vaknaðir á undan mér og komu með látum að vekja mig og það var ekki að því að spyrja, prófessorinn missti sig alveg og öskraði á þessa helv***** (ritskoðað) frændur sína. Þá kom amma inn og spurði hvað væri að og þá sagði ég þessi fleygu orð:

„Þeir vöktu mig af værum blundi að morgni dags“


og þetta hefur fylgt mér í gegnum árin og mikið hlegið að mér þegar þessi setning er rifjuð upp. Gaman, gaman.
Einnig hafa ættingjar mínir gaman af því að rifja upp að ég bar stafinn k í upphafi orðs alltaf mjög asnalega fram, svona svipað og tsj. Þar af leiðandi bar ég nafnið á uppáhaldsmatnum mínum, kjöt í karrí, fram „tsjöt í tsjarrí“ og þetta fannst öllum (og finnst frænku minni Sollu) þetta mjög fyndið. Það bregst ekki að þetta er rifjað upp þegar þessi matur er á boðstólnum.

Að lokum er gaman að rifja upp hvenær ég lýsti fyrst yfir áhuga mínum á að verða læknir en það var þegar ég var nýorðinn sex ára. Þá vorum við á leiðinni til Húsavíkur á jarðarför langömmu minnar sem hafði alltaf verið í miklum metum hjá mér. Hún hafði dáið úr krabbameini og mamma og pabbi voru að útskýra fyrir mér hvernig hún dó og þá sagði ég: „Þegar ég verð stór þá ætla ég að verða læknir og finna upp lækningu við krabbameini!“ og þá var það ákveðið. Í þessari sömu ferð reyndu pabbi og mamma að þagga niður í stanslausum spurningum um það hvenær við kæmum á leiðarenda með því að segja mér að það væri klukkan 21.33 og klukkan væri núna 17.49. Þar með héldu þau að spurningaflóðið myndi enda, en tveimur mínútum seinna kom ný spurning frá mér: „Er það þá eftir 3 klukkutíma og 44 mínútur??“. Já, snemma varð ég nörd :)



Gaman að þessu...

The Dante's Inferno Test has banished you to the Fourth Level of Hell!
Here is how you matched up against all the levels:
LevelScore
Purgatory (Repenting Believers)Very Low
Level 1 - Limbo (Virtuous Non-Believers)Low
Level 2 (Lustful)High
Level 3 (Gluttonous)Moderate
Level 4 (Prodigal and Avaricious)Very High
Level 5 (Wrathful and Gloomy)Low
Level 6 - The City of Dis (Heretics)High
Level 7 (Violent)Moderate
Level 8- the Malebolge (Fraudulent, Malicious, Panderers)High
Level 9 - Cocytus (Treacherous)Low

Take the Dante's Inferno Hell Test



Góðan daginn!!!!

Eruð þið ekki að grínast með erfiðleikastuðul læknisfræðiinntökuprófsins?? (Vá, tvö löng orð í röð ---> impressive). Þetta fannst mér bæði mjög flókið og mjög FB/MH hnitmiðað próf. Mér finnst að ef þú gerir próf þá verðirðu að hafa samráð við alla skóla um lesefni og fleira. T.d. var eðlisfræðiprófið að því er mér sýndist bara samið beint upp úr ca. tveimur köflum í Eðlisfræði 100ogeitthvað...áfanginn skiptir ekki máli heldur staðreyndin að við fengum 3 bls. af formúlum en þetta voru eiginlega bara lesnar spurningar, mjöööög fá dæmi!!
Ef ég hefði fengið fleiri dæmi hefði ég massað þetta!! Súrt. Einnig fannst mér líffræðiprófið mjög FB/MH hnitmiðað með svona 10% þekkingu á eggbúi kvenna og gulbúi.. þeir sem vissu af því og voru undirbúnir undir það (*hóst* Magga Jóna *hóst*) voru GOLDEN en hinir sátu eftir með sárt ennið. Mér finnst árangur minn á líffræðihlutanum ekki næstum því í samræmi við að 10% stúdentseininga minna komu úr því fagi (og reyndar um 8% úr eðlisfræði). Mér fannst alltof alltof margt sem ég giskaði á og það var dregið niður fyrir röng svör :(

En allavegana, FRÁBÆRT að vera búinn með þetta (a.m.k. í ár) og látið mig vita með partý fyrir þreytta prófkrakka!!



Hjátrú og bábilja

Ásdís Eir Símonardóttir góðvinur minn og bloggari með meiru léði máls á hjátrúm og siðum í kringum próf á síðu sinni í stúdentsprófunum. Síðan þá hef ég hugleitt þetta nokkuð þar sem ég taldi mig ekki vera hjátrúarfullan eða hafa ákveðna siði í próflestri eða framkvæmd prófa. Ég verð að afhjúpa að óafvitandi er ég það víst, BIG TIME!
Þannig er nefnilega mál með vexti að ég hef ákveðna siði í prófum:

1. Þegar ég les fyrir stærðfræðipróf geri ég lista þar sem eru reitir til að merkja við eftir að hafa farið yfir viðkomandi reglu/skilgreiningu. Síðasti reiturinn við hvern lið heitir gulltrygging

2. Stærðfræðireglur skrifa ég með bláum penna en skilgreiningar með grænum þegar ég er að læra.

3. Þegar ég fer í próf verð ég alltaf að sitja fremst í stofunni, helst með ekkert nema vegg beint fyrir framan mig. Alltaf.

4. Þegar inn í próf er komið, tek ég alla pennana, blýanta, tvö strokleður og jafnvel sirkil (þótt ég sé í líffræðiprófi) upp úr pennaveskinu og legg á borðið. Bara svona til vara!

Og loks uppáhaldið mitt..

5. Síðan um vorið í 5. bekk (MR) hef ég alltaf farið í bað og lesið í baðinu, allt upp í einn og hálfan tíma. Baðið á að vera sjóðandi heitt og ekki spillir ef það er freyðibað. Að þessu loknu fer ég í sturtu og held síðan áfram að læra. Merkilegt nokk, þá er einbeitingin sjaldan betri en í baði og þá verða erfið dæmi bara skítlétt. Mana ykkur til að prófa þetta. Þetta geri ég helst hvern einasta dag sem ég er að lesa fyrir próf.

Þið megið kalla mig skrítinn ef þið viljið, en svona er ég bara :)



Það er leikur að læra

Það er yndislegt að sitja inni á rassinum (eða liggja með fæturna upp í loft) og gera ekkert nema læra. Læra og læra fyrir inntökupróf! Já, og kannski gaman að geta þess að við fengum mjög góðar leiðbeiningar um það hvað ætti að læra: Aðalnámskrá framhaldsskólanna - alla. Þannig að nú sit ég inni og rembist eins og rjúpan við staurinn (hef aldrei séð rjúpu gera svoleiðis en þær gera það víst) við að læra ýmislegt sem hverfur síðan daginn eftir. Þetta er svolítið eins og að standa upp og detta... sem er ekki gaman.
En allavegana, lífið er yndislegt og ég ætla að vona að þessi 4 ár í MR skili mér inn í læknisfræðina, því mig langar, langar, langar (sumsé langar í þriðja veldi) að læra læknisfræði.

Takk fyrir það

p.s. Nokkurrar kaldhæðni gætir í þessum „pósti“ í sambandi við inniveru í góðu veðri. Þeir sem telja sig hafa náð því mega hunsa þessa neðanmálsgrein og halda áfram á beinu brautinni.
Þeir sem ekki náðu því í fyrstu tilraun geta nú lesið þetta aftur yfir með þessa vitneskju í farteskinu og vonandi gengur þeim betur í annað sinn.
Þeim sem gekk ekki að sjá þetta í annað sinn mega muna að allt er þegar þrennt er!!



Það er alltaf gaman af orðum eða setningum sem eru eins aftur á bak og áfram og ég stal einmitt nokkrum slíkum á heimasíðu einni (man ekki hverri og því er þetta í raun bara ritstuldur). En allavegana, hér koma nokkrar góðar:

1. amma margra argra mamma
2. Líbanir aka Toyota Karina bíl
3. flá álf
4. innisinni
5. tómatamót
6. löggur banna bruggöl
7. nú hrapar hún
8. raksápupáskar
9. Halla María, sú fallega gella Fúsa í Ramallah
10. mun sá Arabi ná ló í nál? Nei, en lán í óláni, bara ásnum

Gaman að sjá hvað ég hef mikið að gera..



Á bílaverkstæði

Það er einstaklega gaman (eða þannig) að afhjúpa heimsku sína og vanþekkingu á hinum ýmsu hlutum. Ég lendi nú ekki oft í því að vita ekki neitt um það sem verið er að tala um en í hvert einasta sinn sem talið berst að bílum þá er ég alveg eins og fiskur á þurru landi. Sem er ekki gott!
Þannig er mál með vexti að ég á bíl (sem ég nefndi Gráa köttinn en það er önnur saga) og nú er búið að heyrast eitthvað hálffurðulegt hljóð í honum í langan tíma en ég nennti ekki með hann á verkstæði þar sem að ég er haldinn bílafötlun á háu stigi og hræðist bílaverkstæði.
Um daginn ákvað ég þó að yfirstíga þennan ótta og pantaði tíma sem var í dag. Þá var ég beðinn um að lýsa því hvað væri að. Kaldur sviti spratt fram á enninu og hendurnar urðu þvalar. Það eina sem ég jós af viskubrunni mínum var: „Það er skrítið hljóð í vélinni“. Mikil hjálp í því, ha?? Svo hringdu þeir af bílaverkstæðinu áðan og sögðust ekki hafa fundið neitt í vélinni og báðu mig að lýsa þessu betur... „Já, hmmmm, það koma svona dynkir þegar ég hraða á og hægi (sem væri þá mestur hluti ökuferðar:) )“. Maðurinn á bílaverkstæðinu afhjúpaði þá fötlun mína og vanþekkingu með því að segja „Já, það var það sem við héldum, þetta er í hjólabúnaðinum“ og þar með lauk vandræðum mínum.

Þessi litla dæmisaga sýnir fram á vanþekkingu mína á bílum og einnig að það á ekki að spyrja mig ef e-r er í vandræðum með bílinn sinn. Auk þess sýnir hún glöggt fram á tilvist æðri vera.

Pís át (eða Pax át)





2. uppskrift => Skyrhræringur/Boost
----fyrir 1-2----

Innihald:
Vanilluskyr.is
Bláberjaskyr.is
Banani 1. stk
Nokkur rauð vínber
Pera eða 1/2 melóna
Fullt af klökum

Aðferð:
Lauslega áætlað magn sett í blandara, muna að setja nóg af klökum og allt hrært vel saman.

Vín:
Ekki er mælt með því að drekka skyr og vín saman og geta ýmsar fróðar konur (t.d. Ásdís Eir) staðfest það :)

Njótið vel


Ónauðsynlegur fróðleikur dagsins:
Hvernig er sekúnda skilgreind?


Árið 1972 var tekið upp alþjóðlegt tímaviðmið þar sem lengd einnar sekúndu er skilgreind sem 9.192.631.770 sameindasveiflur í ákveðinni gerð kristals úr frumefninu Sesíum-133. Frávik þessarar atómklukku verður aðeins 1 sekúnda á 15 milljónum ára.

Vona að þessi lesning sé góð með skyrhræringnum



Matreiðsluhorn Ómars

Eins og allir vita hef ég skrifað nokkrar kokkabækur hér um árin og verið mjög liðtækur í eldhúsinu. Kokkabækurnar hafa ekki notið „almennrar“ hylli og í rauninni bara ég sem veit af þeim. Engu að síður hyggst ég kynna þær hér á netinu með því að birta uppskriftir úr þeim og mun bók mánaðarins vera Matreiðslubók einbúans. Heyrst hefur að vinir mínir séu bráðum að fara að fljúga úr hreiðrinu, mislangt reyndar, sumir fara til útlanda, aðrir í vesturbæinn. Ég er þekktur fyrir að bera hag vina minna fyrir brjósti og því geta þeir væntanlega notað þessar einföldu, fljótlegu og næringarríku uppskriftir.
Uppskriftirnar verða auðvitað misvel uppbyggðar og breytilegar eftir vikum.

1. uppskrift
---fyrir fjóra---
Innihald:
Sími og hægri hendi en einnig símanúmerið 581-2345 (fyrir Kaupmannahafnarbúa er það 33-12-34-56)

Aðferð:
Símtólið er tekið upp, númerið vandlega valið með hægri hendi, hinkrað við andartak, lögð inn pöntun, deigið látið hefa sig, hurðin opnuð með bros á vör og tekið við matnum.

Vín:
Gott vín með þessum rétti er Riesling hvítvín frá Mosel-Saar-Ruwer árgerð 2002.
Einnig er gott að njóta matarins með glasi af Coca-Cola frá Vífilfelli árgerð 2004 (vonandi)

Njótið



Og þá er komið að inntökuprófum

Eftir einn erfiðasta veturinn í MR og eftir að ljúka 1 og 1/2 mánaðar stúdentsprófum hef ég ásamt fleirum ekki fengið nóg af lærdómi og námsbókum heldur arka ótrauður áfram og hakka í mig hverja námsbókina á fætur annarri (reyndar eru þær ekki margar en það lítur bara betur út að segja það). Þetta hlýtur allt að vera hluti af innbyggðri sjálfspíningarhvöt sem við, þ.e. þeir sem ætla að þreyta inntökuprófið, þjáumst af. Eða þá sú staðreynd að ef ég kemst ekki inn þá veit ég ekkert hvað ég á að gera, þar sem ég hef ekki áhuga á neinu öðru námi. Þar af leiðandi er þetta frekar mikilvægt próf fyrir mig og leiðinlegt hvað mér finnst erfitt að læra fyrir það. Bæði gengur það hægt og svo er ég e-ð svo metnaðarlaus fyrir námsbókunum.
En hei, always look on the bright side of life.

-----------------------Gagnslausa fróðleikshorn Ómars-----------------------
Úfurinn er sepi aftast í munninum og er hluti af
lokunarbúnaðinum milli munnhols og nefhols.
Hann sér um að loka þar á milli t.d. þegar við tölum.

barampatisssjjj....fróðlegt ekki satt?


Um mig

  • Ég heiti Ómar Sigurvin
  • og kem frá Húsavík
  • Meira

Aðrir fallegir bloggarar


Annað gott á netinu

Síðustu færslur

Skjalasafnið

Free Hit Counters eXTReMe Tracker


eXTReMe Tracker