Ferðasagan mikla - Tónleikarnir

Fimmtudagurinn 29. júní - Dagur 5
Loksins, loksins, hugsuðu flestir Hróarskeldugestir þennan daginn. Tónleikarnir byrjuðu og fórum við auðvitað strax á svæðið. Þarna erum við á fyrstu tónleikunum, Magtens korridor. Þarna var sólin ekki alveg komin, en veðrið þó allt að batna.


Seinna um daginn sáum við svo Jenny Wilson smá, Ruben Ramos & The Mexican revolution (góðir), 2-3 lög með Clap your hands say yeah, Guns 'n' roses og loks Sigur rós. Guns 'n' roses sökkuðu, komu aaaallltof seint og tóku sér langar pásur, auk þess sem Axl Rose var falskur og raddlítill. Svo að við ásamt mörgum, mörgum öðrum fórum og troðfylltum Arena svæðið og hlustuðum á geggjaða tónleika með Sigur rós, æði, æði. Þeir fengu bestu dóma dagsins í Festival avisen. Þessi mynd er tekin af 70-80 þúsund manns að bíða eftir Axl Rose. Einn maður var með fána sem á stóð "Axl Rose, you WERE my hero". Lýsir vel stemmningunni sem var í hans garð. Á Guns 'n' roses tónleikunum var komið geggjað veður og hélst svoleiðis út ferðina :) Brrrrjálað!

Á meðan við biðum eftir Guns 'n' roses sneri ég mér við og sá þennan mann sem var ALVEG eins og Cuba Gooding Jr., nema bara nokkrum tónum ljósari. Það endaði í miklum vangaveltum og hlátri og tilheyrandi vandræðalegheitum og var kallinn kominn alveg í kleinu. Við kórónuðum það síðan með því að Ásdís bað um að fá mynd með honum og ég vorkenndi karlinum svo mikið að ég bað ekki einu sinni um nýja mynd þegar ég vissi að hann var með lokuð augun. En hann var mjög líkur honum með opin augun...


Föstudagurinn 30. júní - Dagur 6
Þennan dag var geeegjað veður, við vöknuðum í svitabaði og beint út að borða og svo á tónleikasvæðið þar sem fyrstu tónleikarnir á þéttskipuðum degi voru kl. 15, með Mörthu Wainwright. Sándið var lélegt og fullt af fólki að blaðra svo við færðum okkur um set og hlustuðum á plötusnúðana í Birdy Nam Nam, sem voru brjálað góðir og komu manni í mjög gott stuð fyrir daginn. Þessi mynd er tekin af okkur fyrir utan Metropol tjaldið og þarna er Ásdís nýbúin í fyrstu og EINU sturtunni sinni á hátíðinni (ég fór tvisvar).


Tónleikastuðið hélt áfram allan daginn, Kaizers Orchestra voru góðir, urðum að fórna Morrissey fyrir mat og Rufus Wainwright og sé ég ekki eftir því. Rufus var frábær og ekki spillti fyrir að systir hans kom og söng með í nokkrum lögum. Þau voru frábær saman. Síðan fórum við að hlusta á Bob Dylan og ná í ókeypis póstkort og var þessi mynd tekin fyrir framan póstkortastandinn. Gríðarleg stemmning!!


Í stað þess að hlusta á alla Bob Dylan tónleikana, þar sem við nutum þess ekki í botn, vorum mjög langt frá og mikil læti í fólki, fórum við í kúlutjaldið hvaðan ekkert heyrðist en fólk dillaði sér í brjáluðum takti. Þetta var nánast dáleiðandi og þegar við sáum Braga Pál koma út, dillandi mjöðmunum eins og svertingjakona þá urðum við bara að fara inn og prófa þetta. Þetta er nefnilegast hljóðláta diskótekið, þar sem allir fá heyrnatól sem nema sömu bylgjuna svo allir hlusta á sama lagið. Síðan dansar fólk eins og vitleysingar og syngur með, svo að ef þú tekur af þér heyrnatólin heyrirðu bara öskur eins og "I looooove rock and roll" o.s.frv. Þetta var frábær skemmtun en eftir þessa upphitun ákváðum við að við þyrftum bráðnauðsynlega að vera fremst á Scissor sisters og dansa af okkur eins og 1,5 kíló af svita.


Þetta var ákvörðun sem að ég kem sko ALDREI til með að sjá eftir. Við sátum í rúmlega klukkutíma (nær 1 og 40 mínútum) og biðum eftir þeim í góðu yfirlæti þar sem ég og Ásdís gerðum okkur m.a. að fíflum með því að hlusta á og syngja I will always love you með Dolly Parton. Á tímabili þóttist Anna vera dönsk og vera að fara ein á Scissor sisters. Loks komu þau á sviðið og voru G-E-G-G-J-U-Ð!! Ég hvet alla til að sjá þessa hljómsveit á sviði, love it, love it, love it.

Sjóvið var skemmtilegt, mikið um ljós, hávaða og brjálaða dansa. Þau voru líka ótrúlega flott og sexý á sviðinu og náðu upp geggjaðri kvöld/næturstemmningu. Svo ég vitni í þau, þá voru þau "filthy and gorgeous". Ég fór af þessum tónleikum með eitt stærsta bros á andlitinu sem ég hef verið með lengi!


Laugardagurinn 1. júlí - Dagur 7
Þessi dagur var rólegur, tónleikalega séð og því var tilvalið að fara til Roskilde og fá sér góða pizzu og kók sem þar er framreitt í stærstu glösum Danmerkur, held ég barasta. Yndislegt að skella í sig tæpum líter af ísköldu kóki og yndislegri pizzu á Vagabondo's og fá að nýta sér geysigóða klósettaðstöðu í leiðinni (kannski ekkert frábær en mun betri en gömlu góðu kamrarnir..hehe).


Við misstum af Deftones, sáum held ég 1-2 lög og fórum svo á Josh Rouse sem mér fannst geggjað góður. Svo afrekaði ég að sofna aðeins undir "ljúfum" tónum Primal scream og síðan var það Under byen sem var mjög góð, svona blanda af Björk og Sigur rós. Virkilega ágæt dönsk hljómsveit. Loks var það Kanye West sem söng okkur í svefn og var hann virkilega, virkilega skemmtilegur. Mjög fínn náungi og hress á sviði. Hann sagði okkur m.a. að uppáhalds lagið sitt í heiminum væri Take on me með A-Ha. Merkilegt! Eins og sést á meðfylgjandi mynd var næturveðrið yndislegt og húmorinn í lagi! Þetta var mjöög skemmtilegur dagur!


Sunnudagurinn 2. júlí - Dagur 8
Þarna erum við ekki búin að fara í sturtu í svoldið langan tíma og ég var í gönguskóm allan daginn svo það RAUK af fótunum á mér þegar ég fór úr þeim, hvort það var hiti, sviti eða hreinlega fýla veit ég ekki en þetta var frekar nasty.


Við tókum saman tjaldið að mestu áður en tónleikar dagsins byrjuðu en fórum síðan í brjáluðu veðri, 28 stiga hita og logni og sáum smá af Jenny Lewis & The Watson twins, fórum á Strokes sem voru virkilega góðir og helminginn af Franz Ferdinand (brjálað góðir að vanda). Að lokum sáum við The Raconteurs sem er önnur hljómsveit Jack White í White stripes og voru þeir truflað góðir. Æðisleg skemmtun og ég sé ekki eftir því að hafa séð þá, vonandi verða þeir stórt númer. Við fengum okkur síðan að borða og kláruðum á Roger Waters sem voru lokatónleikarnir og stærstu tónleikarnir. Ætli það hafi ekki verið 90-100 þúsund manns þar. Hann stóð sig virkilega vel og maður táraðist, hló og hlustaði af ánægju. Þar sem Anna þurfti að sofa e-ð á undan fluginu sínu til Bretlands morguninn eftir og af því ég og Ásdís vorum búin að sjá tónleika með honum heima, fórum við eftir hálfa tónleikana og tókum restina af dótinu saman og tókum lestina. Hún var mjög pökkuð en ég hitti hressa Breta sem spjölluðu alla leiðina til Köben.


Þegar við komum á Danhostel City (sem by the way er ÆÐI) klukkan 3 um nóttina komumst við að því að Ásdís "maztah planer" Eir hafði bókað dagana 2-4. júlí 2007. TVÖÞÚSUNDOGSJÖ, góðir hálsar!! En þökk sé hjartahlýjum næturverði fengum við herbergi en þurftum að skipta aftur um herbergi næsta dag á eftir! Þetta reddaðist allt sem betur fer!



Ferðasagan mikla - Upphitunin

Þar sem að ferðasagan verður ekki sögð nema í nokkuð mörgum orðum hef ég ákveðið að sundurliða hana og segja frá fyrstu 4 dögunum (upphituninni) fyrst og síðan næstu 4 dögum (tónleikarnir) og loks dögunum tveimur í Kaupmannahöfn.

Sunnudagurinn 25. júní - Dagur 1
Ég fór ekkert að sofa þessa nótt þar sem flugið var klukkan alltof snemma um morgun og ég átti eftir að skúra. Ásdís Eir tók rokkarapakkann á þetta og skellti sér á djammið og pakkaði í bakpokann sinn í annarlegu ástandi. Þetta kom helst fram í því að hún átti engin almennileg föt og því kom það í hlut ferðafélaganna að lána henni nokkrar flíkur. Hún tók sig ansi vel út í samsuðu af kven- og karlmannsfötum. Mamma Ásdísar, Lára, keyrði okkur út á flugvöll og Anna tók á móti okkur í Köben. Þar sem að ég tók einni töflu of mikið af Zobrilinu mínu (róandi) þá sofnaði ég við töskufæribandið í Köben og vinur minn, Ásdís Eir, SKILDI MIG EFTIR!! Allir komust þó heilir á húfi út af flugvellinum og upp í pakkaða lest til Roskilde. Fyrst keyptum við okkur samt forláta, íslenska fána á Hovedbanegarden.
Loks komust við á leiðarenda í glampandi sól og blíðu og tróðumst í hóp annarra æstra gesta inn á svæðið okkar, C-svæði. Þar voru góðvinir Önnu búnir að slá upp tjaldi fyrir okkur (takk fyrir það) og því þurftum við bara að taka nauðsynlegan fatnað og svo út á svæðið. Þar var margt, margt fróðlegt og gerðum við þar hugsanlega bestu, verstu kaup ársins, jafnvel aldarinnar.Þessir forláta drykkjarhjálmar (sem eru samt ekki Security equipment eins og stendur inn í þeim) kostuðu 80 dkk og eru mun betur útlítandi en fúnkerandi.

Mánudagurinn 26. júní - Dagur 2
Annar dagur var öllu rólegri en hinn, Ásdís hélt til Kaupmannahafnar að hitta góðvini sína þar og ég og Anna tókum lestina inn í Roskilde til að kaupa nauðsynjar og borða góða pizzu á Vagabondo's. Um kvöldið var síðan setið í tjaldbúðunum og sumblað, sumir í bjór og aðrir í kóki. Að því loknu tók við grandskoðun á svæðinu þar sem við hittum margt skemmtilegt fólk og misruglað. T.d. var þessi ungi piltur í bandi að sýna "undirföt/sundföt??" fyrir utan eitt sölutjaldið.


Þriðjudagurinn 27. júní - Dagur 3
Þennan dag ákváðum við að fara í Tívolí, þar sem þetta var eini dagurinn sem við komumst öll. Þar sem að Íslendingar verða auðvitað að vera svoldið fínir í Kaupmannahöfn, ákvað Ásdís að túbera á sér (ansi skítuga, 3 daga sturtulausa) hárið. Þetta var voða fínt hjá henni :)

Þetta var áreiðanlega í 5 skiptið sem ég fer í Tívolí og fannst mér ég bara nokkuð duglegur að fara í tækin núna. Ég fékk mig samt engan veginn til þess að þora í Gullna turninn, frekar en venjulega. Ég er reyndar búinn að lofa kærustunni að fara með henni ef við förum saman. Nú er bara spurning um að halda henni frá Kaupmannahöfn :) Nei, djóóók í poka. Stelpurnar fóru held ég 5 sinnum og náði ég ansi góðum myndum af þeim í annað skiptið...


Ég held að við höfum prófað langflest tækin og allt barnadótið líka. Þar prófaði ég m.a. þrautaherbergið í fyrsta skipti, ég hef aldrei séð það áður. Þetta var mjög skemmtilegt (hugsanlega mun skemmtilegra þegar maður er sex ára en heiii) og þar afrekaði Ásdís Eir að slasa sig og er hún fyrsta manneskjan sem ég þekki sem gerir það í Tívolí. Hún datt á höfuðið og öxlina þegar hún reyndi að standa á höndum í tunnu sem snerist. Það síðasta sem við heyrðum var „Heiiiii....þetta er að TAKAST“ þar sem að hún ætlaði að standa heilan hring.

Í Tívolí fengum við okkur að borða á Wagamama, ágætis matur en svoldið dýr fyrir minn smekk og gæði matarins. Þar sáum við líka veitingastað/kaffihús sem mamma Mokka (hahahaha) á greinilega. Þetta er sennilega ástæðan fyrir því að hún er svona góður kokkur! Þeir sem ekki vita þá er Margrét Erla Maack sú sem við köllum Mokkann.

Þetta var hinn besti dagur í alla staði og við hittum Íslendinga sem voru til í að taka mynd af okkur um kvöldið, áður en við héldum í lestina. Þegar að til Roskilde var komið upphófst mikill eltingarleikur því að lestin var farin en síðan hélt Ásdís að það væri önnur komin og plataði óvart heilan hóp af þreyttu fólki til að hlaupa með bakpokana og allt á öxlunum. Á endanum komumst við heim í strætó sem í voru svona 100 manns. Þegar á tjaldsvæðið var komið sáum við að búið var að stela úr tjaldinu; 2 vindsængur, taska, bolur, gúmmístígvél og allt drykkjarkyns var horfið og fengum við að vita daginn eftir að það var dökkhærð stelpa (lesist heimsk tík) sem stal þessu. Ég finn hana í fjöru einhvern tímann. Þetta leystist allt saman, ég og Ásdís keyptum stóra vindsæng og tannbursta og fleira sem var í töskunni sem hvarf. Samt leiðinlegur mórall að stela úr tjöldum....


Miðvikudagurinn 28. júní - Dagur 4
Dagur 4 var rólegur, við fórum inn í Roskilde og fengum okkur pizzu á Domino's (ásamt mjög mörgum Íslendingum, virtumst vera eina fólkið sem fann þennan stað). Síðan var ég búinn að skanna svæðið og finna H&M og það vakti mikla lukku meðal kvenkyns hluta hópsins (sem var meirihlutinn auðvitað). Síðan nýttum við okkur lúxusvatnsklósett sem þarna fundust. Sweeeeet!



Nýjar myndir!!

Ferskar myndir frá Hróarskeldu má finna á myndasíðunni minni. Hlekkurinn á hana er hér til hægri en einnig má smella hér til að fara beint inn á albúmið. Hægt er að sjá lýsingu við hverja mynd undir henni, þar sem eining er hægt að kommenta :) Svo er gríðarlega sniðugur fítus fyrir ofan myndirnar sem heitir slideshow en þá er hægt að sjá skyggnusýningu (hehe) af hátíðinni. Þá má jafnvel sleppa sér alveg og smella í reitinn við hliðina á caption efst í glugganum sem opnast og þá stendur textinn inni á myndinni. Sniðugt, ha?
Það hefur verið svo geðveikt að gera í vinnunni að ég hef ekki haft tíma til að sjóða saman ferðasögu en hún kemur um helgina! Ég lofa!


Um mig

  • Ég heiti Ómar Sigurvin
  • og kem frá Húsavík
  • Meira

Aðrir fallegir bloggarar


Annað gott á netinu

Síðustu færslur

Skjalasafnið

Free Hit Counters eXTReMe Tracker


eXTReMe Tracker