Ómarskúrinn (Omar's diet)

Jæja, jæja, nú er áhyggjum allra of feitra einstaklinga lokið. Enginn Hollywood kúr kemur til með að ná með tærnar þar sem ég og minn kúr hefur hælana!! Hugmyndin að kúrnum vaknaði í partýi hjá Davíð (sem var frábært) og hyggst ég markaðsetja hann um allan heim. Þetta er ótrúlegt, þú grennist og grennist, gerir ekki neitt og borðar hvað sem þú vilt.
Málið er það að í partýinu fræga var búið að athuga það hvaða snakk væri fituminnst og datt mér þá í hug leið til að grennast AFTUR Á BAK. Aðferðin er eftirfarandi:
  1. Fólk lætur mig vita hvað það langar að borða fram í tímann.
  2. Ég finn eitthvað sem er fituMINNA en það sem fólk vill borða.
  3. Endurskrifa matseðilinn með feitari matnum.
  4. Fólk borðar það sem það ætlaði að borða.
  5. Svo segi ég fólki að hugsa hvað það væri feitt EF það hefði borðað feitari matinn og hvað það sé í raun að grennast miðað við það.

Stórsniðugt, ekki satt?? Ég býst við að þetta seljist a.m.k. jafnvel og Hollywood-kúrinn.

Látið mig vita þið sem viljið vera tilraunadýr :)



Já, mikið held ég að það sé erfitt að fæðast! Fyrst þarf maður að vera klofinn persónuleiki, helmingur ofvirkur sundmaður í sæðislíki og hinn helmingurinn spikfeit eggfruma sem dólar um í leghálsinum. Svo þarf maður að ganga í gegnum ferlið að sameina þessa tvo helminga og það eru heil 5 flókin skref í því. Og ekki tekur nú betra við!! Nú þarf okfruman (eins og maður kallaðist víst einu sinni) að skipta sér gasilljón sinnum og lagskipta sér og ég veit ekki hvað og hvað.
Á endanum heitir maður þriggja laga fósturskjöldur (discus embryonicus trilaminaris) sem er í raun bara flöt skífa.

Spólum nú áfram um ca. 8 og hálfan mánuð.

Þá er fóstrið búið að hýrast í einhverjum vatnsbelg í 9 mánuði og allt í einu byrjar bara allt að dragast saman, þrýst á úr öllum áttum og það veit ekki í hvorn fótinn það á að stíga (ekki það að það geti stigið í fótinn en samt...). Loks treðst það í gegnum göng sem það á ekki að geta fræðilega komist í gegn um nema að höfuðkúpan þrýstist saman und so weiter. Þegar öllu þessu er svo lokið kemur hvítklæddur risi (svokallaður læknir), snýr manni við og RASSSKELLIR mann! Hrmpfff...það er nú ekki eins og maður verðskuldi það eftir allt erfiðið.

Já, það er erfitt að fæðast!



Home alone!!

Það er bara ekkert sem jafnast á við að vera einn heima...jú, nema ef vera skyldi að ********* (ritskoðað af ritstjórn). Það er frábært að hafa ekki öskrandi systkini í sitthvoru eyranu og geta eldað sér sinn mat á sínum tíma og ALDREI fisk! Að minnsta kosti erum við Anna nú að passa húsið mitt og byrjuðum á að elda þessa líka dýrindis pizzu og ræða við tvo frændur mína um hvað nútímakonan væri orðin löt, feit og frek. Ég skemmti mér konunglega við þessar umræður og reyndum við að fá Önnu til að breiða út fagnaðarerindið um hina heimavinnandi húsmóður í undirheimum kvennaveraldarinnar. Nú er bara að sjá hvort fagnaðarerindið skili sér inn á heimilin í framtíðinni.
Svo eru engin blóm eða neitt sem þarf að sjá um hérna, svo þetta er bara himnaríki. Stay tuned.

Svo vil ég benda fólki á síðuna hans Önundar en þar kennir ýmissa góðra grasa.



Og já...Mig langar svolítið að smella hér inn einu af mjög (mjög er asnalegt orð, svona meðan ég man) fáum ljóðum sem ég hef ort um ævina. Þetta tiltekna ljóð var ort í íslenskutíma í 8. bekk en þá var ég á 14. ári. Kúl.

Vor
Það er komið vor,
þetta er bara venjulegt vor.
Eða er það?
Þetta er bara venjuleg árstíð,
en samt er sérhver árstíð merkileg,
sérhver dagur góður,
sérhver mínúta dýrmæt
í minningunni.
Vorið brosir til manns björtum geislum sólarinnar
og hlýjar manni um vangann.
Vorið er tími ástarinnar,
hún liggur í loftinu,
skær og hrein,
snertir alla, hrífur alla
í sinn taktfasta dans.
Sumir dansa með,
aðrir sitja hjá.
Í vor ætla ég að dansa með!



Ohh...kominn aftur í sæluna!!

Já, nú er maður nokkur að nafni Ómar Sigurvin mjög ánægður með að vera kominn heim í sælu þráðlausa netsins. Þá get ég loksins farið að blogga aftur, fylgjast með viðburðum líðandi stundar, lesa bloggsíður annarra og fleira og fleira. Ég er viss um að há dánartíðni hér áður fyrr var bara vegna þess að netið var ekki til. Nei, grín. En allavegana, nú hyggst ég reyna að vera duglegri að blogga (eða netdagbókarfæra eða jafnvel veraldarvefsdagbókarfæra á íslensku).

Einmitt núna sit ég hér og bíð eftir að hinn eini sanni bloggandi (ath. ekki sögn í lh. þt.) færist yfir mig en það eina sem ég get hugsað um er latnesk málfræði en ég hyggst mastera beygingarendingar hins göfuga máls um helgina. Ástæðan er ekki sú að ég sé kominn í latínunám í HÍ, ó nei, ástæðan fyrir þessu er að ég var að byrja í líffærafræði (anatómíu) og verandi maður sem hef aldrei séð latínu virðast nöfnin og nafnakerfin frekar flókin. En þetta reddast alveg.

Vikan er búin að vera mjög góð, lauk við lífræna á mánudaginn, fór í sveitt partý á MÁNUDAGSKVÖLDINU, síðan var 90 mín fótbolti á þriðjudaginn og bjórkvöld í gær. Ágætt í alla staði.
Það er eitt sem ég er ósáttur við og það er hversu þétt námsefninu er þjappað. Til dæmis erum við að fara að taka alla fósturfræði mannsins, frá getnaði til fæðingar, á um FIMM tímum í næstu viku. Bókin er hins vegar rúmar 200 blaðsíður. Stuð.

Ásdísi Eir vil ég óska til hamingju með ólöglega internetið sitt og Þórunni til hamingju með að vera komin í Stóra eplið.





„Netið er dásamleg uppfinning“

Þetta er sjálfstilvitnun og lýsir því sem ég er búinn að hugsa síðustu vikuna. Ég hef nefnilega verið að passa hús Kristínar, frænku Önnu, í Mosfellsbæ og hún er „bara“ með 45 kbs módem í heimilistölvunni sinni og ég hef oft hugsað til þess þegar ég var með 14,4 kbs módem og var í marga daga að sjá eina mynd á netinu. Já, nú segi ég bara eins og gömlu karlarnir, tímarnir hafa nú breyst heillin mín. Nú er bara hægt að skella myndum inn á netið, hægri vinstri.
Auk þess hefur verið killer mikið að gera í lífrænni efnafræði og sér ekki fyrir endann á því um helgina. Lokaprófið er á mánudaginn og var 30% fall í því í fyrra. Gaman, gaman. Ég lofa að bloggþörfinni verður svalað að því loknu, ásamt mörgu öðru, t.d. DVD-þörf, afslappelsisþörf og fleira.


Fróðleiksmoli dagsins:
Alkóhól er sameind sem hefur hýdroxýlhóp (-OH) bundið við sp3-svigrúmablandað kolefni.
Það er gaman.

Auk þess til að gera þennan póst skemmtilegan fann ég hérna góða mynd af fjölskylduvininum Bjarka, sem tekin var þarseinasta sumar á göngunni Landmannalaugar-Þórsmörk. Ágæt mynd hjá mér :)




Um mig

  • Ég heiti Ómar Sigurvin
  • og kem frá Húsavík
  • Meira

Aðrir fallegir bloggarar


Annað gott á netinu

Síðustu færslur

Skjalasafnið

Free Hit Counters eXTReMe Tracker


eXTReMe Tracker