Þessi maður heitir Antony.
Hljómsveitin hans heitir Antony & The Johnsons.
Heimasíðan þeirra er hérna.
Tónleikarnir þeirra voru geðveikir.

Hann er besti söngvari sem ég hef heyrt í. Punktur!



Sólbaðsdagar!

Seinustu tveir dagar hafa verið frábærir að mörgu leyti, sólin hefur leikið við okkur og það er einmitt ástæðan fyrir því að ég hef ekki mikið tímt að sofa síðustu daga en ég er búinn að vera á næturvöktum í viku.
Nú sé ég rúmið mitt hinsvegar í hillingum þar sem hálftími er eftir af síðustu næturvaktinni í „rúllunni“ og þá tekur við 5 daga vel þegið frí.
Mig langar bara svona „for the record“ að setja það á alnetið að síðustu 66 klukkustundirnar af lífi mínu (þ.e. tveir sólarhringar og 18 stundum betur) hef ég sofið í hér um bil 10 klukkustundir, í smáum skömmtum í einu. Mig grunar að ég verði sofandi svoldið mikið í fríinu :)
Látið mig samt endilega vita ef þið eruð að fara að gera eitthvað skemmtilegt, ég get sofið þegar ég verð gamall...Góða nótt/morgun/dag



Þegar ég var lítill vildi ég að ég héti Óbmar því að þá væri það Rambó aftur á bak :)



Þegar ég var lítill (IV/IV)

Ég fattaði fullkomna lausn á bloggleysi OG fann tímaþjóf til að stytta mér stundirnar þegar ég þarf að vaka sjö nætur í röð. Ég blogga bara á næturvöktum. Svona er ég sniðugur stundum!!

Síðasta færslan (í bili) sem snýr að æsku minni kemur líklegast mörgum í opna skjöldu, ég ætla nefnilega að opinbera leyndarmálið: Ég var stundum óþekkur strákur! Ég veit að þetta er sjokk fyrir suma, en svona er lífið, sannleikurinn er ekki alltaf fallegur :)
Fjórar sögur kann ég sem ættu að varpa ljósi á þetta.

Saga 1: Ég hef alltaf verið mjög mikill kvennamaður og soga þær að mér eins og segulstál (smá egóflipp í gangi hérna, gefið mér smá séns, klukkan er nú orðin 5). Á leikskóla átti ég margar kærustur og einhverju sinni kom þáverandi kærasta mín að mér þar sem ég var að daðra við eina flotta hjá rólunum (hver hefur ekki hözzlað hjá rólunum sko). Mér leist víst eitthvað betur á þessa rólugellu því að ég ákvað að draga gömlu gelluna á hárinu í burtu og snúa mér aftur að róluhözzlinu. Ég vil taka það fram að þessir Tarzan tilburðir mínir hafa ekki verið reyndir aftur, hvorki fyrr né síðar!

Saga 2: Ég hef alltaf verið frekar glysgjarn (eins og sést kannski best á nýju skónum mínum) og þess vegna er ágætt að hafa mömmu með sér í bæinn, þannig að ég komi ekki heim með 10 hawai-skyrtur og khaki buxur í stíl. Þegar ég var 6 ára sá ég rosa flottar, glitrandi lyklakippur í bókabúð og bað mömmu um kaupa svoleiðis. Henni leist ekki jafnvel á lyklakippukaup og því tók ég málin í mínar hendur (og mína vasa). Þegar við komum heim úr búðinni, sagðist ég ætla að skreppa út að leika mér og tóku athugul augu móður minnar eftir því að vasarnir á jakkanum mínum voru svoldið fyllri en venjulega. Hún bað mig um að tæma vasann sem ég og gerði (og voru 9 lyklakippur í honum). Svo ætlaði svo ég að hlaupa út en þá bað hún mig um að tæma hinn vasann og þar voru aðrar 9 lyklakippur. Ein lyklakippa var greinilega ekki nóg fyrir mig, ég þurfti hvorki fleiri né færri en 18 stykki.

Saga 3: Í fyrstu þremur bekkkjum grunnskóla kenndi mamma Hörpu, Guðrún, mér og var samstarfið okkar á milli oft á tíðum ekki gott. Sem betur fer kenndi hún mér aftur í 10. bekk svo þar náðum við að grafa stríðsöxina! (Harpa, þú mátt skila því til mömmu þinnar að hún sé kúl) Henni fannst ég frekar óstýrlátur og því brá hún á það ráð að senda mig heim á hverjum degi með hegðunarbók, þar sem hegðun mín var skráð niður og átti mamma að kvitta í hana í hvert skipti. Þar stóðu hlutir eins og "Ómar hegðaði sér vel í dag, annan daginn í röð" og "Ómar var óþekkur í dag, blablabla". Það er eiginlega synd að ég skuli ekki finna þessa bók, það væri hörkustuð að grípa í hana í góðra vina hópi. Best að leita að henni þegar ég kem heim. Skrifa það á bak við eyrað!

Saga 4: Á mínum yngri árum sendi jólasveinninn mér oft bréf sem hljómuðu ansi líkt og hegðunarbókin gamla góða. Þar var ég minntur á að hegðun mín hefði ekki verið góð og reynt að höfða til hagsýni minnar (sjá Þegar ég var lítill II/IV) þar sem mér voru boðnar góðar gjafir hjá næsta jólasveini ef ég myndi haga mér vel. Oftast virkaði þetta, a.m.k. í einn dag :) Ég man eftir að hafa séð svona bréf í möppunni minni heima og ég hugsa að ég pikki eitt slíkt inn við tækifæri. For the whole world to see.

Jæja, nú er sólin að koma upp, það er nú skýjaðra núna en síðustu tvo morgna!
Lifið heil! (Vá, hvernig ætli það sé að lifa hálfur eða kannski bara einn þriðji??)



Þegar ég var lítill (III/IV)


Þegar ég var yngri tók ég oft svona fýluköst (tek nú eitt og eitt ennþá :) ) og það var oftar en einu sinni sem ég sagðist ætla að flýja að heiman en oftast rann mér nú reiðin mjög fljótt. Það er eitt skipti sem ég flúði að heiman sem ég man sérstaklega vel eftir.

Ég bjó á 3. hæð í blokk í Flúðaseli 72 í mjög fínni íbúð og einhverju sinni þá varð ég fúll og sagði við mömmu að nú væri ég sko farinn út og kæmi aldrei aftur. Ekki kippti hún sér upp við það og sagði mér bara að ég mætti gera það sem ég vildi. Ég fór út en flúði nú ekki lengra en út á stigapall og sat þar úti í horni og hugsaði það bara að ég mundi nú ekki fara inn á næstunni. Þegar ég fékk litla athygli þá "neyddist" ég til að fara inn til að minna á mig og sýna mömmu fýlusvipinn þannig hún mundi nú ekki gleyma því að ég væri í fýlu. Ég fór semsagt inn og þóttist ætla að ná mér í vatn. Ég man hvað mér leið aulalega að vera að koma inn aftur og höfum við nú oft hlegið mikið af þessari "uppreisn" minni!!

Gaman að 'essu! Vá...þetta var nú ekki góð saga. "This one time at band camp"



Þegar ég var lítill (II/IV)

Ég hef alltaf verið mjög hagsýnn maður og mikið fyrir að spara (og sérstaklega fyrir aðra, móður minni til mikillar mæðu!). Þrjú atriði rifjuðust upp fyrir mér um daginn þegar ég var að hugsa um hvað ég gæti nú bloggað um í sumar.

Fyrsta atriðið: Ég vissi vel að jólasveinninn væri ekki til, áður en að mamma og pabbi sögðu mér það. Samt lét ég líta út fyrir að ég væri mjög hissa þegar mamma sagði mér það. Ástæðan fyrir því að ég lét þau ekkert vita af þessu var sú að mér fannst bara helvíti fínt að fá gott í skóinn og grunaði að það mundi hætta, léti ég þau vita að ég sæi í gegnum blekkinguna.

Annað atriðið: Snýst um svipað þema og það fyrsta. Auðvitað vissi ég vel að það var ekki til neinn tannálfur! Þessvegna lét ég mömmu og pabba ALLTAF vita að ég ætlaði að láta tönnina undir koddann, þar sem að ég vissi að mín biði 50 kall fyrir (og jafnvel bréf100kall ef ég var heppinn!).

Þriðja atriðið: Þegar ég var yngri fannst mér afskaplega óþægilegt að ganga í dýrum fötum og fékk alltaf samviskubit þegar mamma keypti föt sem voru í dýrari kantinum (kannski hefði maður gott af því að fá smá svona samviskubit stundum?!?). Eitt af fyrstu skiptunum sem við fórum í dýrari búð, þá var það Deres í Kringlunni (hét samt Borgarkringlan þá). Við keyptum töluvert af fötum og auðvitað var ég búinn að leggja saman í huganum hvað þetta mundi kosta, en það er eitthvað sem ég geri í hvert skipti sem ég fer í búð (einnig til nokkurrar armæðu fyrir mömmu!). Ég gleymdi samt að skoða verðmiðann á einni peysunni og krossbrá þegar að afgreiðslumaðurinn las upp verðið. Ég var með hnút í maganum alla leiðina heim og þegar að heim var komið sagði ég mömmu að ég mundi aldrei geta gengið í þessu og við fórum aftur niður eftir. Ég talaði við afgreiðslumanninn og sagði honum eins og væri og fékk inneignarnótu fyrir tæplega 9000 kallinum sem peysan kostaði. Ég held að þetta hafi verið þegar ég var 12 ára.


P.s. Að einu óskildu máli.... ég óska Dagbjörtu til hamingju með að vera komin inn í læknisfræði! :)



Af hverju geta ekki öll dýrin í skóginum verið vinir???
Mér líður ekki vel að búa í heimi þar sem maður vaknar við fréttir um hryðjuverk og morð á fólki sem ekki hefur gert flugu mein!



Þegar ég var lítill (I/IV)

Nú er ég orðinn svo gamall að nauðsynlegt er að rifja upp atvik úr barnæsku, svona áður en ellin hellist yfir og maður fer að kalka ;)

Þegar ég var lítill strákur (svona u.þ.b. 5 ára) bjuggum við mamma með systur mömmu og syni hennar, Viktori, sem er einu ári eldri en ég. Það var hinn mesta skemmtun og margt brallað og bardúsað. Um jólin fengum við jóladagatöl með súkkulaðinammi inni í og var það æðislegt. Þeir sem þekkja mig vita að ég er MIKILL nammikarl og vildi ég helst opna alla gluggana í einu. Það þótti ekki góður siður og var mér bannað að gera það. Einhverju sinni var ég einn heima og freistingin varð skynseminni yfirsterkari og opnaði ég því alla gluggana á dagatalinu og hámaði í mig súkkulaðið.

Ekki lét ég þó staðar numið þar, heldur varð starsýnt á dagatal frænda míns, og þar sem ég hef alltaf verið mjög sleipur í reikningi áttaði ég mig auðvitað á því að þar leyndist sambærilegt magn af súkkulaði. Varð úr að ég opnaði alla hans glugga líka og kláraði súkkulaðið. Stuttu síðar kom fólkið heim og þá voru góð ráð dýr!

Mín lausn var sú að ég sagði mömmu sögu af hryllilega fátækri stelpu sem átti engan að og var svo svöng og köld að ég varð bara að hleypa henni inn og gefa henni eitthvað að borða. Þar sem að hún hafði aldrei átt neinn pening og enginn verið góður við hana áður, þá hafði hún auðvitað ekki fengið nammi fyrr. Ég var því svoooo góður strákur að ég gaf henni bara dagatalið mitt OG Viktors. Stelpan fór auðvitað hæstánægð, mett og fín í burtu og ég hafði gert þvílíkt góðverk.

Allt þetta sagði ég grafalvarlegur með súkkulaði út um allt andlit!!


p.s. þar sem sagan þótti svo vel skálduð, fékk ég litlar sem engar skammir í hattinn fyrir uppátækið.....sem er gott!


Um mig

  • Ég heiti Ómar Sigurvin
  • og kem frá Húsavík
  • Meira

Aðrir fallegir bloggarar


Annað gott á netinu

Síðustu færslur

Skjalasafnið

Free Hit Counters eXTReMe Tracker


eXTReMe Tracker