Helgin var spes...
...nanoinn minn „bilaði“ (kominn í lag núna, fáir útvaldir fá að vita hvað gæsalappirnar tákna)
...ég gleymdi að tippa í frændaleiknum þannig að ég á ekki séns í 40 þúsund kallinn
...ökklinn er hálfónýtur eftir fótboltann á föstudaginn
...ég og Kalli fórum galvaskir í ræktina á ókristilegum tíma á laugardegi, bara til þess að gribban í móttökunni gæti sagt okkur að ræktin væri lokuð
...ég negldi höfðinu á mér í horn á veggnum við það að taka borðið í stofunni í sundur. Nú er ég með fallega misfellu á enninu

Þrátt fyrir þetta var helgin barasta hin besta, ég fékk að vera með góðu fólki og læra ekki neitt (hóst, ekki í fyrsta skipti, hóst). Ég naut þess í botn að fara út að borða, á Idol og horfa á mynd með fallegri og frábærri stelpu, fór í afmæli hjá Hönnu Rut (gríðarlega góðar veitingar, takk fyrir mig) og fyrstu æfingu hjá Kammerkór MR. Kórinn hljómaði mjög vel miðað við fyrstu æfingu og lítur þetta mjög vel út. Ég vil hvetja alla MR-inga, og reyndar aðra líka þar sem að það laumast einn og einn utanskólasöngvari með okkur, til að mæta. Bara láta mig vita fyrst í síma 822-4466 eða bara í kommentakerfinu. Svo má líka fara inn á óopinbera heimasíðu Kórsins. Þar má finna einhverjar nánari upplýsingar.

Þegar ég skoða þetta í heild sinni var helgin bara nokkuð góð, eins og oftast. Ég er afskaplega heppinn að þekkja svona mikið af góðu og skemmtilegu fólki. Þið vitið hver þið eruð! Og þið eruð æðisleg :)



Frábýkúl

Þetta er nýyrði sem ég ætlaði að reyna að koma inn í íslenska orðabók í næstu útgáfu. Orðið er samsett úr þremur lýsingarorðum og sparar þetta því mikinn tíma.
Orðin þrjú eru frábært, ýkt og kúl og eins og allir vita þá notar fólk þessi orð alltaf saman. Ímyndið ykkur hvað allt verður auðvelt. T.d. „Hvernig var myndin?“ „Hún var frábær, ýkt og kúl!“ Þetta er nú nokkuð óþjált. Miklu þjálla væri að segja „Hún var frábýkúl!“

Bara pæling...



Ég elska...

...að gefa gjafir og auðvitað finnst mér frábært að fá gjafir líka. Að gefa gjafirnar gerir þó meira fyrir mig, þar sem það er svo skemmtilegt að gleðja aðra og sjá undrunar- og ánægjusvipinn í andlitunum á þeirra sem maður gefur.
Ég á það mjög oft til að gefa frekar gjafir sem eru fyndnar heldur en gjafir sem hafa eitthvað rosalegt notagildi. Þetta á þó frekar við afmælisgjafir heldur en jólagjafir, þar sem að þær síðarnefndu verða oft svona „hátíðlegri“. Síðustu tvö ár hef ég verið á Flórída yfir jólin og því gef ég hluta jólagjafanna þegar ég kem heim og þá er hluti jólaglansins og alvarleikans horfinn. Því hefur það æxlast þannig að Ásdís Eir hefur síðustu tvö ár fengið mjög ópraktískar (en flottar auðvitað) jólagjafir. Í hitteðfyrra var það garðálfurinn mikli:


Hann virkar mjög stór á þessari mynd en í rauninni stendur hann í lítilli hillu. Þessi garðálfur (garden gnome) var auglýstur fyrir fólk sem hafði aldrei átt garð og öfundaði vini sína af görðunum sínum (og garðskrauti). Núna er álfurinn í París en hægt er að skipta bakgrunninum út þannig að hann sé út í sveitasælunni og upp í fjöllum. Svo var fjórði bakgrunnurinn en ég man ekki hvernig hann var. Sérstaklega hentug uppfinning :)
Síðustu jól var jólagjöfin svo keypt í búðinni Banana Moon í Notting Hill í London. Gjöfin kallaði á mig úr hillunni, þetta var akkúrat það sem Ásdísi vantaði:


Uppblásni eiginmaðurinn hefur nú þegar vakið mikla lukku og hafa þau bundist miklum trúnaðarböndum. Meira að segja hafa þau bundist það miklum böndum að fyrsta kvöldið fékk hann gat á vinstri rasskinnina. Við hvaða aðstæður veit ég ekki en hann hlaut nafnið Loðvík út af fínu bringuhárunum sem hann ber. Eins og stendur á pakkanum er hinn fullkomni eiginmaður hér á ferð þar sem að hann hefur alla þá kosti að bera sem prýða þann mann:

  • Öllum vinum þínum líkar vel við hann
  • Foreldrum þínum líkar ráðahagurinn vel
  • Alltaf til þjónustu reiðubúinn
  • Horfir ekki á fótbolta
  • Alltaf trúr þér og bara þér
  • Og hann flýtur!!

Það sem stóð hinsvegar ekki á pakkanum var að þetta er rauðhærður dvergur, um 100 cm á hæð. En það er allt í lagi, þetta eru 100 cm af hinum fullkomna karlmanni sem er kannski meira en 200 cm af venjulegum meðaljóni. Hvað næstu jól bera í skauti sér veit enginn....stay tuned ;)



„If you knew that you would die today [...] would you change?“
Change - Tracy Chapman

Eins og ég hef oft bloggað um áður þá hlusta ég á tónlist mestan hluta dagsins. Á morgnana „vakna“ ég (lesist: ligg og dorma í rúminu á meðan tónlistin vekur alla hina í húsinu) við tónlist úr gríðarlega fallegu vekjaraklukkunni minni (samt engin Clocky sko). Þegar ég loksins stend upp set ég stundum á iPodinn í Harman Kardon græjunum og hlusta á eitt gott lag á meðan ég bý um. Þar sem ég vakna mjöööög sjaldan á réttum tíma skýst ég yfirleitt út án þess að borða. Í bílnum tekur við meiri tónlist, ýmist af diskum eða úr iPodnum í gegnum Monster útvarpssendinn. Ég hlusta örsjaldan á útvarpið enda hentar engin stöð mér sérstaklega eftir að Gullið lagðist af hér um árið. Oftast eru samt 9,77; 89,5; Létt eða 104,5 ágætar en talið á milli truflar mig. Í skólanum er vitaskuld ekki hægt að hlusta á tónlist og kennarann á sama tíma (því miður) þannig að þar fer ég í smá pásu.
Seinna um daginn fer ég yfirleitt að vinna eitthvað, læra, gera skýrslu eða undirbúa fyrirlestra og þá er tónlistin alltaf í gangi, oft í elskulegu Sennheiser heyrnartólunum mínum sem ég keypti í Búdapest. Ef að sá gállinn er á manni fer maður í ræktina og hlustar á Muse í fullri keyrslu á hlaupabrettinu. Síðan tekur ferðin heim við með ljúfri músík í lok dags. Í þau skipti sem ég fer að skúra, sem ég geri með Kára og Sigrúnu þá er iPod nano alltaf á hendinni á mér og lagalistinn Party oftar en ekki í gangi. Þegar ég leggst á koddann (sem er yfirleitt um 1-2 leytið sem skýrir kannski vakningarvandann) þá syngja Damien Rice, Leonard Cohen og Tindersticks mig mjög oft í svefn. Þá kemur sér vel að geta stillt iPodinn á að slökkva á sér eftir korter eða hálftíma. Yfirleitt er ég samt sofnaður innan 3 mínútna.

Nú er ég búinn að gera heillanga færslu sem átti bara að vera smáinngangur í aðalfærsluna sem útskýrir titilinn. Það er nefnilega svo frábært að hlusta á góða texta sem hafa einhverja þýðingu, vekja upp einhverjar tilfinningar eða eru nógu eftirminnilegir til að maður rauli þá fyrir munni sér lengi á eftir. Það eru nefnilega til textar og lög fyrir næstum hvaða tilefni, tilfinningu eða dagsform sem við á. Einn slíkur textabútur vakti mig til umhugsunar en hann er í titlinum. Þetta er úr laginu Change með Tracy Chapman.
Ég hef oft velt því fyrir mér hvort maður myndi breyta einhverju, gera eitthvað öðruvísi eða upplifa eitthvað nýtt ef maður vissi að maður ætti bara ákveðinn tíma eftir á jörðinni. Það er fullt af fólki í heiminum í dag sem fær t.d. að vita að það þjáist af banvænum sjúkdómum og fær að vita að það eigi bara ákveðið langt eftir ólifað. Síðan er fólk sem vinnur þannig vinnu að það leggur sig í lífshættu á hverjum degi og menn sem bíða dauðarefsingarinnar og vita fyrirfram dagsetninguna langt fram í tímann en geta að sjálfsögðu ekkert gert í fangelsinu. Einnig er (því miður) til fólk í heiminum í dag sem ákveður að drepa sig og marga aðra í leiðinni í sjálfsmorðsárásum í nafni einhvers sem það trúir á. Þetta fólk er væntanlega búið að plana það langt fram í tímann og veit því að á ákveðnum degi mun það deyja.
Þegar að ég hef velt þessu fyrir mér þá kemst ég alltaf að sömu niðurstöðu varðandi mig persónulega. Ég hef reynt að lifa eftir þremur (reyndar fjórum) meginreglum sem mamma og pabbi settu mér frá unga aldri. Þessar reglur eru:

  1. Þú getur allt sem þú ætlar þér.
  2. Vertu þú sjálfur þannig ert þú bestur.
  3. Ekki gera neitt sem þú kemur til með að sjá eftir.

Þetta er hin heilaga þrenning en síðan er ein regla sem var ekki hluti af þrenningunni:

  • Aldrei fara ósáttur að sofa, leystu ágreininginn áður en þú sofnar.

Ég held að ef maður lifir samkvæmt einhverjum ákveðnum lífsreglum og -gildum, þá geti maður svarað spurningunni í titlinum neitandi. Að minnsta kosti myndi ég ekki breyta neinu í mínu lífi ef ég fengi að vita að dagurinn væri runninn upp. Þeir sem hafa ef til vill gert eitthvað sem þeir sjá eftir (líkt og þeir sem sitja á dauðadeildum) myndu hugsanlega vilja fara til baka og breyta því þó að það sé að vitaskuld ekki hægt.
Ég hugsa samt að ef ég fengi X tíma úthlutað, þá myndi ég vilja prófa fullt af hlutum, fara í fallhlífarstökk, heimsækja allar heimsálfurnar 7, fara í djúpsjávarköfun og halda eitt risastórt partý þar sem ég myndi skemmta mér með öllum sem ég elska og dái í þessum heimi.

p.s. Ef einhver nennti að lesa þetta allt þá langaði mig bara að benda á að hægt er að ná í lagið Change með því að velja copy link eða smella á lagið hér fyrir ofan til að hlusta.



Ég vil bara benda fólki á eitt...ég hata Blogger NavBar sem þeir tróðu efst á síðuna hjá öllum fyrir einhverju síðan. Nú hef ég sagt því stríð á hendur og hef ákveðið að deila því hvernig hann er tekinn út með öllum sem það vilja. Aðferðin er einföld og skilvirk fyrir þá sem kunna á template-ið sitt og einfaldan html kóða.
Til að fela Blogger Navbar nægir að afrita eftirfarandi kóða milli style> og /style> skv. eftirfarandi dæmi:

style type="text/css">

#b-navbar {
height:0px;
visibility:hidden;
display:none
}

/style>

ATH! Einungis á að afrita það sem er á milli style> og /style>, ekki taka þetta tvennt með. Ég varð að taka út < fyrir framan style til að geta sett kóðann inn. Vonandi nota sem flestir þetta! Látið mig bara vita ef ykkur vantar hjálp!
Njótið vel og góðar stundir! :)



Jibbý...nýtt útlit!

Mér leiddist og ákvað að þar sem ég væri búinn að skipta um númer gæti ég nú gert eitthvað ferskt í bloggmálunum. Fyrsta skrefið var nýtt útlit og líst mér persónulega bara vel á það!
Það eru nokkrir vankantar sem ég hyggst laga á næstu dögum auk þess sem nýtt og ferskt útlit kallar á ný og fersk blogg. Vonandi kemur andinn yfir mig :)
Þið megið gjarna kommenta á nýja útlitið....



Hei, þú, ógisslega töff, ég vil tala við þig!!

Já, nýir tímar og nýtt númer! Nú er hægt að ná í mig í síma 822-4466. Megi nýja númerið verða til þess að fólk muni númerið mitt en hið gamla var náttúrulega mikið torf og alls ekki auðvelt að muna það!
Ég elska lagið með Sylvíu Nótt. Það má nálgast hér og ég vona að ég sé ekki að brjóta einhver sveitt lög með því að vista það á háskólasvæðinu mínu! Mér gæti samt ekki verið meira sama.
Mörður Mánason dó og ekkert við því að gera....fúlt!



Öppdeit!!

Nú vill þessi glaði maður tala við mig á Skype....það er ALLT að gerast! :)
P.s. Hvað er málið með Mörð Mánason?!?!



Omar = Arabi??

Eins og flestir vita þá er Omar arabískt nafn að uppruna og náði útbreiðslu á Íslandi á 20. öld.
Einnig vita margir að margir „vondukallar“ (e. Bad guys) í heiminum í dag bera þetta nafn, oft sem annað eða þriðja nafn.
Sumir hafa kannski tekið eftir því að ég kalla mig oft Mullah eða Mohammed Omar á MSN í gríni en þetta eru tvö nöfn sem voru mikið í fréttunum fyrir einhverju síðan.

Þetta voru þrír fróðleiksmolar sem eru nokkurs konar inngangur í söguna mína. Um daginn fékk ég mér nefnilega Skype og Google talk eftir að Ásdís Eir prómóteraði þessi forrit fyrir mér. Þau eru gríðarlega sniðug og gera fólki kleyft að tala saman eins og í gegnum síma, jafnvel á milli landa, án þess að sprengja símareikninginn. Sneðugt!?
Ég vissi ekki um neitt gott notendanafn á Skype og auðvitað var Omar upptekið, svo ég ákvað að prófa eitthvað skemmtilegra.MullahOmar var upptekið svo að MohammedOmar varð fyrir valinu. Allt gott og blessað með það svosem en fyrir viku byrjaði ég fyrst að nota það og láta það opnast í hvert skipti sem ég fer í tölvuna. Þá fór ég að taka eftir undarlegum hlutum. Forritið virkar svipað og MSN og þarf maður að samþykkja alla þá sem vilja spjalla við mann og getur leitað að vinum sínum eftir t.d. nafni og séð hvort þeir séu „skype-arar“. Mohammed og Omar virðast vera algeng leitarnöfn hjá fólki um allan heim og sérstaklega í Arabalöndunum. Á miðvikudaginn í síðustu viku reyndu t.d. 3 einstaklingar að hafa samband við mig. Einn þeirra var frá Armeníu, einn frá Jórdaníu (sem hét Allah- og svo einhver ending sem ég man ekki) og einn frá Egyptalandi. Daginn þar á eftir voru það tveir sem höfðu arabísk tákn í nöfnunum sínum og annar þeirra hringdi í mig án þess að ég væri búinn að samþykkja hann sem ég vissi ekki að væri hægt...

Nú er þrennt sem ég get gert í stöðunni:
  1. Hætt að nota þetta nafn og sótt um annað á Skype.
  2. Haldið áfram að blokka fólk sem ég þekki ekki (og er greinilega að leita að Mohammed)
  3. Leyft þessu fólki að hringja í mig og styrkt mínar arabísku rætur.
Allir þessir kostir eru raunhæfir en ég held ég hætti strax við kost númer 1, þar sem að ég er hrifinn af þessu nafni og finnst þetta auk þess svolítið fyndið. Líklegt er að ég haldi mig við kost númer 2 í einhvern tíma í viðbót og sjái svo til hvort að kostur númer 3 sé ekki sniðugur. Eini gallinn við hann er að maður hættir á að lenda í einhverjum geðsjúklingi....en það gæti jafnvel verið gaman.
Ég hugsa að ég fari bráðum að komast á lista hjá CIA vegna óeðlilegra tengsla minna við arabaheiminn...stay tuned!


Um mig

  • Ég heiti Ómar Sigurvin
  • og kem frá Húsavík
  • Meira

Aðrir fallegir bloggarar


Annað gott á netinu

Síðustu færslur

Skjalasafnið

Free Hit Counters eXTReMe Tracker


eXTReMe Tracker