Jæja, þá er komið að síðasta póstinum hér á þessu bloggi. Ástæðan fyrir því hvað hann var lengi að koma er eflaust treginn við það að hætta að blogga (þó ég hafi nú kannski ekki verið neitt sérstaklega duglegur við það). En fátt er svo með öllu illt að ei boði gott og því er það mér mikil ánægja að kynna nýtt og betra blogg. Það er staðsett á nýja léninu mínu, omarsigurvin.com, og vonast ég eftir að sú síða verði miðstöð mikilla afreka á komandi árum. Endilega hendið út þessari og bætið þeirri nýju á bloggrúntinn. Auk þess má núna senda mér póst á omar@omarsigurvin.com.
Góðar stundir!
P.s. Mér þætti vænt um að sjá sem flesta á föstudaginn í Hinu húsinu. Hér fyrir neðan er auglýsing sem ekki er alveg tilbúinn en verður það í kvöld. Hinsvegar breytast staðreyndirnar á henni ekki :)
Skrifað af Ómari; miðvikudagur, febrúar 27, 2008.
299
Sum lög eru bara einfaldlega betri en önnur. Sum myndbönd eru líka bara æðislega geggjuð og vel unnin. Þetta er hvorugt: Samt er þetta eitt af þeim lögum sem kemur mér alltaf í gott skap. Myndbandið er líka ekki af verri endanum, ef maður telur gæði myndbanda í magni þess aulahrolls sem þau valda. Mæli með 'essu!
Skrifað af Ómari; sunnudagur, febrúar 03, 2008.
298
Í fyrndinni var ég með teljara á síðunni sem sýndi fjölda heimsókna frá teljari.is. Síðan fóru þeir að rukka fyrir að hafa glugga frá þeim á síðunni og þá skipti ég og fékk mér ókeypis teljara. Síðan gaf sú þjónusta upp öndina og fékk ég mér þá falinn teljara á extremetracking.com. Mér finnst gaman að skoða teljarann endrum og eins og sjá hvaða leitarorð leiða fólk inn á síðuna, hversu margir eru að skoða hana (sem kemur mér alltaf jafnmikið á óvart) og hvaðan fólkið er. Nú er teljarinn búinn að vera uppi í nákvæmlega 1 ár og heimsóknirnar voru 10.000. Það er ágætt, alveg hreint. Þegar ég fór yfir skiptingu eftir löndum fannst mér samt merkilegt hvaðan heimsóknirnar koma.
Efstu fjögur löndin koma ekki á óvart, þar sem flestir sem ég þekki eru á Íslandi, fjölskyldan mín býr í US and A og góðvinir mínir í Svíþjóð og Danmörku. Hinsvegar kemur fimmta landið á listanum skemmtilega á óvart, Algería, en ég tel að það sé vegna arabíska nafnsins míns. Ég hlýt bara að poppa oftar upp þegar þeir eru að leita heldur en einhver sem heitir t.d. Guðný. Svo er líka gaman að skoða hvert vinir manns hafa ferðast og hvort þeir hafi kíkt á síðuna þar sem þeir voru. Til dæmis eru heimsóknir frá Kenýa ofarlega á lista, mér sýnist Gunnildur og Hrafnhildur hafa kíkt á síðuna frá Guatemala og Lilja og Keli þegar þau voru í Malawi. Samtals voru heimsóknir frá 72 löndum sem samsvarar 37,5% af löndum heimsins. Maður er svo sannarlega „internassjonal“!
Hverjir þekkja ekki 5 sekúndna regluna? Ég þekki hana allavegana og þekki reyndar strák sem ráðist var á niðri í bæ, þegar hann benti öðrum strák á hana eftir að sá missti pizzuna sína í jörðina á Lækjartorgi. Þannig geta eiturlyfin farið með mann! Fyrir þá sem ekki vita það, þá felst 5 sekúndna reglan í því að ef þú missir eitthvað matarkyns í gólfið, þá máttu taka það upp og borða það ef þú nærð því innan 5 sekúndna. Samkvæmt rannsókn sem gerð var í University of Illinois 2003, þekktu meira en 50% karla og yfir 70% kvenna þessa reglu, og beittu henni margir (sjá hér). Ég hef notað þessa reglu óspart og jafnvel lengt hana upp í 10 sekúndna reglu þegar ég er á stað þar sem slíkt er viðeigandi (t.d. á hreina hreina eldhúsgólfinu mínu). Ég mun hugsanlega endurskoða afstöðu mína eftir að lesa greinina sem hlekkurinn hér fyrir ofan vísar á. Auk þess fletti ég þessu efni upp á PubMed og fann rannsóknina sem vitnað er í og er hún síðan í apríl í fyrra og má finna hér: Residence time and food contact time effects on transfer of Salmonella Typhimurium from tile, wood and carpet: testing the five-second rule Ég hugsa nú að ég muni samt sem áður alveg borða eitthvað sem ég missi í gólfið. En maður veit aldrei. ---------------- Lag færslunnar: Velvet Revolver - Dirty Little Thing