Vakning
Ég á ótrúlega skemmtilega vekjaraklukku. Að minnsta kosti get ég sagt að hún sé skemmtileg núna þegar ég er vaknaður, ég ber ekki sömu tilfinningar til hennar á morgnana þegar hún öskrar á mig „bíííííb, bííííb, bíííííííííííííííííííb“. Það má eiginlega segja að þetta sé ástar/haturssamband...
En allavegana, þá er þessi vekjaraklukka þeim eiginleika gædd að hún hringir með tvennum hætti. Fyrst ber að telja hið hefðbundna bíbb en auk þess er hún búin útvarpsvekjara. Þeir sem þekkja mig, vita að ég hlusta á tónlist allan daginn (og þegar ég er ekki að hlusta á hana, þá er ég yfirleitt að raula eitthvað). Þessvegna er ómetanlegt fyrir mig að byrja daginn á góðri tónlist og það hefur bara gerst alla síðustu viku, þar sem ég ákvað að skipta um útvarpsstöð. Núna er það 91,9 og verð ég að mæla með henni klukkan 7 á morgnana!
Meðal laga sem hafa komið síðustu vikuna eru Jacqueline og Take me out með Franz Ferdinand, In the arms of a woman með Amos Lee, Desperado með Eagles og svo í morgun var það Angie með Rolling Stones. Það er bara ljúft að vakna við þýða rödd Mick Jagger svona í morgunsárið.
Það mætti halda að ég myndi vakna við það að liggja í rúminu og hlusta á þessi lög (og jafnvel syngja með ef ég er í sérstökum fíling) en þeir sem þekkja mig mjög vel, vita að ég er sérstakur morgunhani og sprett fram úr rúminu eða hitt þó heldur. Sannleikurinn er sá að ég þjáist af krónískri „ég-verð-alltaf-að-leggja-mig-aftur-á-morgnana“ veiki. Algjör aumingjagangur, ég veit! Ég þarf að bæta úr þessu hið snarasta! En það er að minnsta kosti mjög ljúft að vakna við góða tónlist á morgnana, hvort sem maður fer á fætur strax eða ekki :)
0 Responses to “”
Leave a Reply